Nýtum allt til góðra verka

EFLA tekur þátt á fagsýningunni Verk og vit sem verður í Laugardalshöllinni dagana 18. - 21. apríl.

Kynningarbás.

EFLA á Verk og vit 2024

Bás EFLU er unninn í samstarfi við Verkvinnsluna og ber yfirheitið Nýtum allt til góðra verka. Á bás EFLU á Verk og vit árið 2024 er lögð áherslu á endurnýtingu byggingarúrgangs og að lengja líftíma bygginga. Básinn er því algjörlega unninn úr endurnýttum byggingarúrgangi.

Frá árinu 1999 hefur EFLA verður brautryðjandi þegar kemur að gerð vistferilsgreininga (e. LCA) sem reiknar úr kolefnisspor bygginga. Hægt er að lækka kolefnisspor bygginga töluvert með því að endurnýta og endurnota úrgang byggingarefna og það vildi EFLA sýna í verki í bás sínum á Verk og vit. Á honum sýnum við í raun hvernig nýta megi allt til góðra verka.

Vistferilsgreiningar

Mikil áhersla er lögð á að endurnýta stóran hluta þess sem er rifið niður og þannig að lengja líftíma bygginga. Þess vegna þarf að meta hvað er hægt að endurnýta, setja skýr markmið, reikna út bestu niðurstöðuna og nýta greiningar til að hámarka niðurstöðuna. EFLA hefur notað vistferilsgreiningu síðustu áratugi til að lengja líftíma hvers verkefnis og þannig nýta allt til góðra verka.

Niðurrif

Miklir möguleikar eru í að nýta það mikla magn og verðmæti sem falin eru í byggingarúrgangi hér á landi með endurnotkun, endurvinnslu eða endurnýtingu. Ef rífa á byggingu eða byggingarhluta skal vanda niðurrif mikilvægt til að efni haldist heil og skemmist ekki svo hægt sé að endurnota þau í sama tilgangi og þau voru ætluð til í upphafi. Hægt er að endurvinna þau með því að nýta efni og auðlindir aftur. Eða endurnýta þannig að efnin blandist öðrum efnum til að mynda nýja heild.

Vinnsla úrgangs

Byggingaiðnaðurinn er talinn vera ábyrgur fyrir um 39% kolefnislosunar og niðurrif byggingar mælist um 5%. Hins vegar lækkar endurnýting efna í lok líftíma byggingarinnar kolefnissporið um 15%. Landsmarkmið frá og með árinu 2020 er að 70% byggingar- og niðurrifsúrgangsins sé flokkaður með þeim hætti að hann sé hæfur til endurnýtingar. Þá er frammi tillaga um að markmið fyrir árið 2030 sé að 95% byggingar- og niðurrifsúrgangs fari í endurnýtingu og 5% í förgun. Tölurnar sýna því mikilvægi þess að nýta allt til góðra verka.

Uppbygging

Byggingar- og niðurrifsúrgangur sem má nota til uppbyggingar er meðal annars timbur, steinefni, málm, gler, plast og gifs. Um er að ræða flestan þann úrgang sem til kemur vegna byggingar- og niðurrifsstarfsemi. Meðal þess er niðurrif vegna viðhalds og breytinga á líftíma mannvirkja. Þennan úrgang er hægt að vinna þannig að hann nýtist nýframkvæmdum og nýtist allur til góðra verka.

Endurnýttur kynningarbás

Nýtum allt til góðra verka.

EFLA vill senda skýr skilaboð með þátttöku sinni á fagsýningunni Verk og vit þetta árið. Básinn, sem er framleiddur af listmönnunum Adrian Frey Rodriguez og Narfa Þorsteinssyni úr Verkvinnslunni, er algjörlega unninn úr endurnýttu byggingarefni.

Í þessari staðreynd liggja skilaboðin. Við viljum sýna stefnu EFLU þegar kemur að því að lækka kolefnisspor bygginga og byggja upp sjálfbærari framtíð.

Af því endurnýtta byggingarefni sem var notað til að byggja þennan kynningarbás verður sumt notað enn aftur til að framleiða eitthvað nýtt. Annað mun lifa áfram sem listaverk í höfuðstöðvum EFLU að Lynghálsi 4 í Reykjavík.

Með þessu viljum við sýna í verki hvernig megi hugsa um endurnýtingu þegar á að framleiða eitthvað nýtt, hvort sem það eru nýbyggingar eða kynningarbás. Hvernig megi nýta allt til góðra verka.